United Silicon starfar í kísilmálmiðnaði og framleiðir afurðir sínar í verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík. Þar er fyrsti 32 MW ljósbogaofn verksmiðjunnar staðsettur og framleiðir kísilmálm með því að bræða kvars við 1900 gráðu hita á Celsíus. Framleiðsla verksmiðjunnar er aðallega nýtt í sólarrafhlöðuiðnaði og ál- og silikoniðnaði og endar í um 12.000 mismunandi vörutegundum sem framleiddar eru og seldar um allan heim.

Flestir nota silikon að minnsta kosti þrisvar á dag þegar þeir bursta tennurnar á morgnana (í tannkremi), þvo á sér hárið (í sjampói og hárnæringu), nota húðkrem (í flestum kremum) og keyra í vinnuna (það er silikon í öllum dekkjum). Auk þess er sílikon allt í kring í húsunum okkar (í baðherbergjum og í kringum glugga) og  í bílum og flugvélunum sem við notum, þar sem mest af því áli sem er notað er málmblanda með 2-10% kísilmálmi.