United Silicon var stofnað árið 2014 af Magnúsi Garðarssyni umhverfisverkfræðingi, Helga Birni Ormarssyni vélaverkfræðingi og Friðbirni Garðarssyni hæstarréttarlögmanni í samstarfi við hollenska fyrirtækið Silicon Mineral Ventures, sem sér um sölu- og markaðsmál í gegnum fyrirtæki sitt BIT Fondel í Rotterdam.

Verksmiðjan var byggð á tímabilinu frá júlí 2014 til júlí 2016. Prófun á tækjum og búnaði  hófst  í ágúst 2016 og stóð fram í nóvember 2016, þegar kísilframleiðsla hófst. Í verksmiðjunni er 32 MW ljósbogaofn, hannaður og byggður af Tenova Pyromet á Ítalíu. Annar framleiðslubúnaður verksmiðjunnar er einnig frá Tenova Pyromet, þar á meðal viðamikið reykhreinsivirki.

Markmið stofnendanna var að reisa kísilmálmverksmiðju sem notaði hreina og endurnýjanlega orku Íslands til að framleiða kísilmálm með umhverfisvænum hætti. Hluti þess kísilmálms sem framleiddur er í verksmiðjunni fer til viðskiptavina sem starfa í sólarrafhlöðuiðnaðinum. Þar með nýtist íslensk endurnýjanleg orka til að framleiða endurnýjanlega orku á sólríkum svæðum annars staðar í heiminum.

United Silicon er í meirihlutaeigu Íslendinga. Auk stofnenda eru hluthafar, frá Íslandi, Danmörku og Hollandi. Þar á meðal íslenskir lífeyrissjóðir og íslenskur banki.