Sorry, this entry is only available in Icelandic. For the sake of viewer convenience, the content is shown below in the alternative language. You may click the link to switch the active language.

Stjórn United Silicon leggur sem fyrr áherslu á mikilvægi þess að tryggja rekstur fyrirtækisins á þann veg að unnt sé að finna lausn á þeim vandamálum sem komið hafa upp í rekstrinum undanfarna mánuði. Það er forsenda þess að fyrirtækið geti starfað til lengri tíma litið.


Stjórnin tekur alvarlega þær áhyggjur sem liggja að baki ályktun bæjarráðs Reykjanesbæjar í dag og leggur áherslu á vilja sinn til að reka fyrirtækið í sátt við nærumhverfið. 

Fyrirtækið fékk í vor til liðs við sig alþjóðlega sérfræðinga í fremstu röð til að finna lausn á lyktarvanda og þeim óþægindum sem hann hefur valdið. Þeir hafa þróað mælingaáætlun með norsku loftgæðarannsóknastofnuninni (NILU) og unnið hefur verið eftir henni undanfarna mánuði. Fyrstu niðurstöður NILU benda til þess að ekki sé í útblæstri verksmiðjunnar efni sem skaðleg geta verið heilsu manna, en stofnunin telur að frekari rannsókna sé þörf til að greina til fulls hvaða efni valdi óþægindum og lykt. Umhverfisstofnun hefur tekið í sama streng í yfirlýsingu sinni 7. júlí sl. þar sem m.a. var sagt að nauðsynlegt væri að fá frekari mælingar á þessum efnum til að meta betur hugsanleg heilsufarsáhrif mengunarinnar. Ef áfram verður haldið með verkefnið mun á næstu vikum vonandi takast að greina betur hvaða efni valda óþægindum og lykt og þróa leiðir til að eyða þeim eða koma í veg fyrir að þau myndist. Stöðvun verksmiðjunnar nú myndi ekki skila neinum árangri í þeirri vinnu og skapa fullkomna óvissu um áframhald rannsókna, framtíðarrekstur, störf starfsmanna og hagsmuni kröfuhafa.