Greiðslustöðvun til 22. janúar 2018

Héraðsdómur Reykjanes féllst í dag á beiðni stjórnar United Silicon um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar til 22. janúar 2018.

Upphaflega fékk stjórn félagsins heimild til greiðslustöðvunar um miðjan ágúst. Í september var óskað eft­ir fram­leng­ingu á greiðslu­stöðvun fé­lags­ins og fékkst frestur til 4. desember. Á greiðslustöðvunartímabilinu hefur mikil vinna verið lögð í nauðsynlegar greiningar á starfsemi United Silicon og farið yfir leiðir til úrbóta. Sérstaklega hefur verið unnið að úrlausn þeirra athugasemda sem eftirlitsaðilar gerðu við starfsemi félagsins.

Um sextíu manns eru að störfum hjá verksmiðjunni en frá því framleiðsla var stöðvuð í byrjun september hefur starfsfólkið meðal annars sinnt viðhaldi.

Frekari upplýsingar veitir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, í síma 6929797.

 

Þórður Magnússon nýr forstjóri United Silicon

Stjórn United Silicon hefur ráðið Þórð Magnússon sem forstjóra fyrirtækisins. Þórður útskrifaðist sem eðlisfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og sem doktor í efnisfræði (e. Material Science) frá Norwegian University of Science and Technology (NTNU) árið 2000. Þórður gegndi áður stöðu framleiðslustjóra í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Þórður hefur að undanförnu gegnt stöðu aðstoðarforstjóra United Silicon.

Þá hefur stjórn United Silicon gert starfslokasamning  við Helga Þórhallsson, sem tók við stöðu forstjóra fyrirtækisins í apríl 2015. Helgi er efnaverkfræðingur og hefur hann komið að mörgum kísilverkefnum um allan heim, m.a. í Kína og Inónesíu fyrir utan Noreg og Ísland og á nær 40 ára starfsreynslu í kísiliðnaði.

Nánari upplýsingar veitir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, í síma 6929797.

 

Niðurstöður efnamælinga í Helguvík vegna verksmiðju United Silicon

Niðurstöður mælinga Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar (NILU) á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (VOC) vegna kísilverksmiðju United Silicon hafa borist félaginu og Umhverfisstofnun.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að í engum sýnum hafi efni frá verksmiðjunni verið í skaðlegum mæli. Alls hafi 200 efni verið mæld en meðal þeirra 35 efna sem hæst mældust hafi ekkert þeirra verið á þeim kvarða sem þyki óeðlilegur í úthverfi eða þéttbýli.

Mælingarnar voru gerðar á sýnum sem tekin voru tímabilinu 21. maí til 23. júní í ár. Sýnin voru tekin í íbúðabyggð í námunda við verksmiðjuna, á lóð verksmiðjunnar og inn í henni þar sem styrkleiki efna ætti að vera hvað mestur, það er inn í ofnhúsi og síúhús. Þess ber þó að geta að á umræddu tímabili voru kvartanir til Umhverfisstofnunar vegna lyktar fremur fáar.

Niðurstaða rannsókna NILU er að engin skaðleg efni finnist í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða. Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars að efnamælingarnar þyki dæmigerðar fyrir það sem þekkist utandyra yfir sumartíma í íbúðabyggð. Efnastyrkur í ofnhúsi var fremur lágur miðað við það sem þekkist í samskonar iðnaði, að því er segir í skýrslunni. Í síuhúsi, það er reyksíu verksmiðjunnar, voru vísbendingar um lífrænt anhýdríð sem gæti valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum, tekið skal fram að síuhús er hluti hreinsibúnaðar verksmiðjunnar.

Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi reynst unnt að mæla formaldehýði á umræddu tímabili. Tekið skal þó fram að Umhverfisstofnun óskaði í sumar eftir greiningu á formaldehýði í nágrenni United Silicon og í útblæstri síuhúss fyrirtækisins ásamt mælingu á öðrum gastegundum. Umsjón mælinga var í höndum Efnagreiningar Keldnaholti/Nýsköpunarmiðstöð.

„Við teljum þetta mikilvægt gagn í vinnu við að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft horf. Enn er þó mikið verk óunnið. Mikilvægast er að vera viss um að öryggi íbúa á svæðinu og starfsmanna sé ekki ógnað og er því niðurstöður mælinga sem þessara forgangsatriði. Við munum halda þeirri vinnu áfram, fyrir liggja tillögur frá NILU um frekari mælingar en það er ekki hægt að ráðast í þær nema leyfi fáist á því að ræsa verskmiðjuna á ný,“ segir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon.

Skýrsla NILU

Mælingar Efnagreiningar Keldnaholti

Nánar um loftrannsóknir á athafnasvæðinu í Helguvík

NILU er sjálfstæð rannsóknarstofnun með rúmlega þrjátíu ára reynslu af efnamælingum og hefur byggt upp mikið gagnasafn sem notuð eru til samanburðar. Upplýsingar um NILU hér.

Þá er einnig minnt á að Orkurannsóknir ehf. sjálfstætt starfandi eining innan Keilis, hafa fylgst með loftgæðum á þremur stöðum á athafasvæðinu Helguvík með sjálfvirkum mælum. Niðurstöður þeirra er hægt að sjá á vefsíðunni www.andvari.is  og  er auk þess hægt að hlaða niður með Excel eða sambærilegum hugbúnaði. Tekið skal þó fram að slökkt var á ofni verksmiðjunnar 1. september. Nánar um Orkurannsóknir ehf hér.

 

 

 

Tilkynning frá United Silicon

Hlutahafafundur United Silicon hf. fór fram í gær, 19. september 2017. Arion banki og fimm lífeyrissjóðir hafa tekið yfir 98,13% hluta félagsins. Á fundinum var Þórður Ólafur Þórðarson kjörinn nýr stjórnarmaður en auk hans skipa stjórnina þau Sigrún Ragna Ólafsdóttir og Jakob Bjarnason, stjórnarformaður félagsins.

Fyrr í mánuðinum veitti Héraðsdóm­ur Reykja­ness félaginu framlengingu á heimild til greiðslu­stöðvunar til þriggja mánaða, eða til 4. des­em­ber.

Stjórn félagsins vinnur áfram að endurskipulagningu félagsins og hefur stuðning hluthafa til að leita nýrra fjárfesta og leiða viðræður við þá.

Frekari upplýsingar veitir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, í síma 692 9797.

Stjórn United Silicon sendir kæru til Embættis héraðssaksóknara

Fréttatilkynning frá United Silicon

Stjórn United Silicon sendir kæru til Embættis héraðssaksóknara

Grunur um refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon

Stjórn United Silicon hefur í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til Embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon.

Kæran byggir á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar. Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.

Farið hefur verið yfir málið með starfsmönnum United Silicon og þeim greint frá stöðunni.

Frekari upplýsingar veitir Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, í síma 6929797.

Framlenging greiðslustöðvunar til 4. desember 2017

 

  1. september 2017 – Héraðsdóm­ur Reykja­ness veitti í gær United Silicon framlengingu á heimild til greiðslu­stöðvun til þriggja mánaða, eða til 4. des­em­ber. Helgi Jóhannesson hrl. hefur verið ráðinn aðstoðarmaður í greiðslustöðvun og hefur Héraðsdómur Reykjaness staðfest þá ráðningu. Framlengingunni er ætlað að gera fyrirtækinu kleift að endurskipuleggja rekstur félagsins og hrinda í framkvæmd endurbótaáætlun, sem byggð er á ráðleggingum utanaðkomandi sérfræðinga, með það að markmiði að gera fyrirtækið fjárhaglega og tæknilega rekstrarhæft til lengri tíma litið.

Stjórn félagsins vinnur nú hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við kröfuhafa þess. Fjárhagserfiðleikar félagsins eru fyrst og fremst afleiðing rekstrarerfiðleika í verksmiðju félagsins sem rekja má til endurtekinna bilana í búnaði og valdið hafa félaginu miklu tjóni. Á greiðslustöðvunartíma verður því líka unnið að frekari greiningum á tæknilegum úrlausnarefnum, áætlunum um úrbætur og nauðsynlegum endurbótum.

Heimsmarkaðsverð á kísilmálmi fer hækkandi og spurn eftir kísilmálmi eykst. Framtíðarhorfur rekstrarins eru því góðar, að því tilskyldu að takist að endurskipuleggja reksturinn og fjármagna nauðsynlegar endurbætur.

Í bréfi Umhverfisstofnunar (UST) frá 1. september var félaginu tilkynnt um þá niðurstöðu UST að endurræsing ofns verksmiðjunnar sé óheimil nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.

Stjórn félagsins tekur alvarlega þá miklu ábyrgð sem fylgir því að reka starfsemi sem þessa og vill gera það í góðri sátt við nærsamfélagið og eftirlitsaðila og í samræmi við ákvæði laga og starfsleyfis. Stjórn félagsins mun á næstu mánuðum vinna að endurskipulagningu rekstrar til að tryggja rekstrarhæfni félagsins til frambúðar. Í því samhengi leggur stjórnin áherslu á að tryggja hagsmuni kröfuhafa félagsins, starfsfólks þess og hag sveitarfélagsins af tekjum af rekstri félagsins. Hluti þess verkefnis er að tryggja félaginu fjármagn til að ráðast í allar nauðsynlegar úrbætur til að bæta rekstur verksmiðju félagsins.

Áður hafði United Silicon í svörum til UST veitt upplýsingar um fjölmörg úrbótaverkefni sem ætlunin er að ráðast í á greiðslustöðvunartíma. Ákvörðun UST kallar á enn frekari greiningu á mögulegum úrbótum og tímasetta áætlun um þær. Multiconcult er norsk ráðgjafarverkfræðistofa í fremstu röð á Norðurlöndum og hefur unnið með félaginu frá því síðasta vor og mun halda áfram að vera lykilráðgjafi félagsins í endurbótaferli næstu mánaða. Multiconsult fékk Norsku loftgæða­rann­sókna­stofn­un­ina (NILU) til liðs  til að rannsaka og greina útblástur frá verksmiðjunni og mun það starf halda áfram.

Stjórn félagsins vinnur auk þess að því að styrkja innviði félagsins og gerir ekki ráð fyrir að koma þurfi til uppsagna starfsfólks. Hluti þess mun vinna að endurbótum á vinnustaðnum auk þess sem kapp verður lagt á að nota næstu þrjá mánuði til að styrkja starfsfólk í störfum sínum með því að auka þjálfun og fræðslu á meðan hefðbundin verkefni liggja niðri. Mannauður félagsins er lykilatriði til að tryggja framtíðarrekstur verksmiðjunnar.

Stjórnin hefur ennfremur fengið Karen Kjartansdóttur til að sinna hlutverki talsmanns fyrirtækisins næstu mánuði. Hún hefur mikla reynslu af fjölmiðlum, var samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2013-2016 og hefur á þessu ári unnið á ráðgjafastofunni Aton. Þá hefur stjórnin fengið Kristin Bjarnason hrl. til ráðgjafar fyrir félagið.  Kristinn er einn reyndasti lögmaður landsins í störfum fyrir fyrirtæki í greiðslustöðvun og nauðasamningsumleitunum.

Frekari upplýsingar veitir Karen Kjartansdóttir, talsmaður fyrirtækisins í síma 6929797 eða með því að senda póst á karen@aton.is.

 

 

Yfirlýsing vegna áforma Umhverfisstofnunar um lokun verksmiðju United Silicon

Stjórn United Silicon hefur móttekið bréf Umhverfisstofnunar frá 23. ágúst og mun svara því eins og stofnunin gefur kost á. Stjórnin tekur sem fyrr mjög alvarlega þá ábyrgð sem á henni hvílir við að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins í góðri samvinnu við nærsamfélagið og eftirlitsstofnanir.

Yfirlýsing frá stjórn United Silicon vegna bókunar bæjarráðs Reykjanesbæjar

Stjórn United Silicon leggur sem fyrr áherslu á mikilvægi þess að tryggja rekstur fyrirtækisins á þann veg að unnt sé að finna lausn á þeim vandamálum sem komið hafa upp í rekstrinum undanfarna mánuði. Það er forsenda þess að fyrirtækið geti starfað til lengri tíma litið.


Stjórnin tekur alvarlega þær áhyggjur sem liggja að baki ályktun bæjarráðs Reykjanesbæjar í dag og leggur áherslu á vilja sinn til að reka fyrirtækið í sátt við nærumhverfið. 

Fyrirtækið fékk í vor til liðs við sig alþjóðlega sérfræðinga í fremstu röð til að finna lausn á lyktarvanda og þeim óþægindum sem hann hefur valdið. Þeir hafa þróað mælingaáætlun með norsku loftgæðarannsóknastofnuninni (NILU) og unnið hefur verið eftir henni undanfarna mánuði. Fyrstu niðurstöður NILU benda til þess að ekki sé í útblæstri verksmiðjunnar efni sem skaðleg geta verið heilsu manna, en stofnunin telur að frekari rannsókna sé þörf til að greina til fulls hvaða efni valdi óþægindum og lykt. Umhverfisstofnun hefur tekið í sama streng í yfirlýsingu sinni 7. júlí sl. þar sem m.a. var sagt að nauðsynlegt væri að fá frekari mælingar á þessum efnum til að meta betur hugsanleg heilsufarsáhrif mengunarinnar. Ef áfram verður haldið með verkefnið mun á næstu vikum vonandi takast að greina betur hvaða efni valda óþægindum og lykt og þróa leiðir til að eyða þeim eða koma í veg fyrir að þau myndist. Stöðvun verksmiðjunnar nú myndi ekki skila neinum árangri í þeirri vinnu og skapa fullkomna óvissu um áframhald rannsókna, framtíðarrekstur, störf starfsmanna og hagsmuni kröfuhafa.

 

Slökkt á ofni United Silicon

Vegna lagfæringa á rafskauti í ljósbogaofni United Silicon var slökkt á ofninum nú undir kvöld. Unnið er að viðgerð. Lykt gæti borist frá verksmiðjunni í kvöld og nótt.

Frekari upplýsingar
Kristleifur Andrésson
6696017

Sameinað Silicon ehf fær heimild til nauðasamninga

Héraðsdómur Reykjaness veitti í dag stjórn Sameinaðs Silicons ehf. heimild til greiðslustöðvunar sem miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánadrottna. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni. Vegna þessara rekstrarerfiðleika var fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánardrottna og yfirvofandi eru aðgerðir einstakra kröfuhafa ef ekki verður brugðist við án tafar. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV eykur enn á þessa óvissu en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur.

Hluthafar hafa frá því verksmiðjan tók til starfa lagt félaginu til viðbótarhlutafé til að fjármagna reksturinn og endurbætur á búnaði og almennri aðstöðu fyrir starfsfólk. Ljóst er að enn frekari endurbætur á búnaði og aðstöðu eru nauðsynlegar til að verksmiðjan geti framleitt afurðir í því magni og af þeim gæðum sem áætlað var í upphafi og án þeirrar lyktarmengunar sem íbúar í nágrenninu hafa kvartað undan.

Það er mat stjórnar félagsins að með greiðslustöðvun megi skapa ráðrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að koma rekstri verksmiðjunnar í eðlilegt horf. Markaðshorfur fyrir afurðir verksmiðjunnar eru góðar og verð hefur farið hækkandi. Framtíðarhorfur eru því vænlegar að því tilskyldu að unnt verði að afla aukins fjármagns, semja við lánardrottna og endurskipuleggja reksturinn. Nauðsynlegt var að fá heimild til greiðslustöðvunar til að freista þess að rétta við rekstur félagsins og ná samningum og samstarfi við lánardrottna með það að markmiði að ná bindandi nauðasamningum.

Stjórn félagsins tekur alvarlega þá ábyrgð sem fylgir því að reka stórt fyrirtæki með mikinn fjölda starfsmanna sem skapar tekjur fyrir nærsamfélagið. Nauðasamningar eru besta leiðin til að verja þau störf og tryggja að hægt sé að halda uppbyggingu starfseminnar áfram á þann veg að fyrirtækið geti starfað í samræmi við starfsleyfi og í góðri sátt við umhverfið.

Nánari upplýsingar verða veittar þegar forsvarsmenn félagsins hafa fundað með aðstoðarmanni í greiðslustöðvun og þá í samráði við hann.